Gufuá er lítil, viðkvæm veiðiá. Á þurrkasumrum getur efri hluti arinnar verið vatnslítill, en neðri hlutinn er af öðrum toga. Þar hefur áin grafið sig niður í tímans rás og felur fiskurinn sig í djúpum álum og dimmum hyljum. Sjávarfalla gætir í neðstu veiðistöðum Gufuár. Ekki er þó veitt í saltvatni, heldur ýta sjávarföllin ferskvatni úr vatnakerfi Hvítár uppí Gufuá. Þegar flæðir að lifna hyljirnir því við og takan getur verið grimm. Besti tíminn til veiða í Gufuá líkt og í fleiri ám í Borgarfirði er júlí. Eðlileg veiði í ánni er sennilega á bilinu 150-220 laxar á tvær stangir og mest hefur hún gefið 300 laxa. Í ánni eru merktir ríflega 50 veiðistaðir en reynsla síðustu ára sýnir að þeir eru miklu fleiri og stór hluti neðra svæðis er ókannaður með tilliti til stangveiða. Fram til þessa hefur mest verið veitt á maðk en fluguveði hefur aukist í ánni undanfarin ár.