Þessi litla á er í Fljótavík á Hornströndum og rennur í Fljótavatn. Þetta er spennandi veiðisvæði og í vatnakerfinu öllu, ánni, vatninu og svokölluðum Atlastaðaós er mikil fiskgengd. Þarna er aðallega bleikja, en einnig slæðist inn einn og einn lax. Í Reiðá er veiðin best í ágúst og samkvæmt Sigrúnu Vernharðsdóttur á Ísafirði, sem á ættir að rekja til Fljótavíkur, er oft svo mikið af fiski í ánni að það sér ekki í botn.