Svartá í Bárðardal á upptök sín í Svartárvatni annarsvegar og hinsvegar í lindum í Suðurárbotnum við Ódáðahraun. Hún rennur um 8 km leið uns hún sameinast Suðurá, sem er lindá, talsvert kaldari og að auki mun vatnsmeiri. Frá ármótum Svartár og Suðurár eru tæpir 10 km niður að mótum við Skjálfandafljót. Svartá er einstaklega frjósöm, með fjölbreyttu lífríki. Umhverfið er einstakt, þar sem hún rennur í og við hraunjaðar, og veiðistaðir afar fallegir og fjölbreytilegir. Margir nefna að hún sé eins og litla systir Laxár í Mývatnssveit en afskekktari og friðsælli. Staðbundinn urriði er uppistaðan í veiði Svartár, þó fá megi stöku bleikjur neðan til í ánni. Á Svartárkotssvæðinu er megnið af fiskinum rúmir 50 cm en í neðri partinum er breytileikinn í stærð meiri.