Kaldakvísl er á Holtamannaafrétti og fellur í Sporðöldulón. Hún hefur fram til þessa verið leynd perla á hálendinu. Áin geymir ótrúlegan bleikjustofn og geta stærstu bleikjurnar orðið allt að 10 pundum. Ekki er óalgengt að menn setji í 5-6 punda fiska. Í Köldukvísl er einnig að finna urriða sem líka getur orðið mjög stór. Þar sem um staðbundna stofna er að ræða er fiskur í ánni allt veiðitímabilið. Náttúrufegurð á svæðinu er engu lík. Í ánni má finna stórkostleg gljúfur, fossa, stóra djúpa damma, langar grunnar breiður og allt þar á milli. Mokveiði getur verið í Köldukvísl einn daginn en þann næsta getur hún orðið mjög krefjandi. Kaldakvísl hefur því allt sem veiðimaður getur dreymt um.