Kringluvatn er í Suður-Þingeyjarsýslu og er u.þ.b. 0,6 km² að stærð og í tæplega 270 m yfir sjávarmáli. Úr vatninu fellur Geitafellsá í Langavatn. Mesta dýpi er um 12 m. Bæði urriða og bleikju má finna í vatninu, bleikjan er mest smá en talsvert veiðist af vænum urriða, sérstaklega í dorgveiði sem er talsvert stunduð í vatninu. Besti veiðitíminn er að öllu jöfnu árdegis og síðla dags. Best er að komast að Kringluvatni frá Kísilveginum (nr. 87) milli Húsavíkur og Mývatns, eftir slóða að vatninu. Mikið grisjunarstarf hefur verið unnið í vatninu síðustu ár með góðum árangri og er bleikjan að ná sér á strik.