Arnarvatn stóra er meðal vinsælli veiðivatna á Íslandi. Það er í 540 m hæð yfir sjó, um 4.0 km² að flatarmáli, alldjúpt og vogskorið. Við eina aðalvíkina, Sesseljuvík áttu Húsfellingar veiðistöð. Úr henni fellur Austurá. Hólmavík heitir suðausturhluti vatnsins og í hana fellur Skammá úr Réttarvatni. Það er mikið af bleikju og urriða í vatninu en eins og jafnan veiða menn mismikið. Markviss netaveiði hefur hjálpað til við að halda stærð fisksins í jafnvægi og á það einna helst við um bleikjuna. Veiðileyfin gilda á öllu svæðinu og í efsta hluta Austurár. Best er að renna á morgnana og kvöldin og mestu veiðina er oft að fá fljótlega eftir að ísa leysir.