Dalsá og Tungudalsá eru laglegar dragár í Fáskrúðsfirði. Þær eiga upptök sín í tæplega 1.000 metra hæð á heiðunum inn af Fáskrúðsfirði og renna um dalina sitt hvoru megin við Suðurfjall. Dalsá er stærri áin og liggur þjóðvegurinn úr Fáskrúðsfjarðargöngum meðfram henni að mestu. Tungudalsá er hinsvegar í nokkuð ósnortnu og fallega grónu umhverfi og er ekki akfært með henni.
Stærð bleikjunnar í Dalsá er svipuð og í ánum í næstu fjörðum, mest af punds og hálfs annars punds fiskum. Hvert sumar koma þó á land fiskar um og yfir 3 pund og svo einn og einn lax. Tungudalsá breytir sér talsvert á milli ára, enda ekki óalgengt að það komi í hana mikil hlaup. Þó eru þar góðir veiðistaðir sem virðast halda sér árlega og þar leynast bleikjur af sömur stærð og í Dalsá.