Eldvatn á Brunasandi á upptök í Eldvatnsbotnum eystri í Brunahrauni. Hún rennur í nokkrum kvíslum undan hrauninu sem síðan sameinast og renna í Hverfisfljót. Í ánni er aðallega sjógengin bleikja en einnig sjóbirtingur vor og haust. Þarna veiðist líka stöku sinnum lax. Helsta bleikjusvæðið er ofan við bæinn Teygingarlæk, en neðan við hann veiðast oft nokkrir laxar. Sjóbirtingsveiðin er aðallega í ármótunum við Hverfisfljót, en þar veiðast einnig stórar bleikjur eða allt að 8-9 pund.