Eldvatn í Vestur-Skaftafellssýslu er mjög gott sjóbirtingssvæði, en einnig veiðist þar stöku lax og bleikja. Veiðisvæðið er með þeim fallegri á landinu, með fjöldan af fjölbreyttum veiðistöðum. Töluverð veiði er á svæðinu, en erfitt getur verið að finna fiskinn þar sem hann sýnir sig lítið í yfirborðinu. Veiðitímabilið 2019, skilaði um 500 birtingum þar sem um 150 fiskar voru lengri en 70 cm langir og þrír þeirra stærstu voru 90, 93 og 95 cm langir.
Vorið 2013 tók nýr leigutaki við veiðisvæði Eldvatns, veiðifélagið Unubót. Í samvinnu við alla landeigendur á vatnasvæði Eldvatns og veiðimenn, var ráðist í ræktun og sleppingar á sjóbirtingsseiðum í þeim tilgangi að viðhalda og byggja upp stofna skaftfellska sjóbirtingsins. Það hefur sannarlega skilað góðum árangri.