Fremri-Deildará er á Melrakkasléttu og rennur frá Fremra-Deildarvatni niður í Ytra-Deildarvatn. Þetta er lítil en afskaplega falleg á. Veiðimenn þurfa að leggja nokkuð á sig til að veiða hana þar sem engir vegir eru upp með henni. Menn leggja bílum við Ytra-Deildarvatn og ganga svo norðan með vatninu þar til komið er að Fremri-Deildará. Neðst í ánni er 200 metra kafli, en þar safnast oft óhemjulegt magn af silungi og sjást þar stundum bleikjutorfur. Urriða má einnig víða finna í ánni. Fiskurinn er oft nokkuð tökuglaður, bæði á púpur og straumflugur og við réttar aðstæður er hægt að gera góða veiði með þurrflugum. Bleikjan í Fremri-Deildará er yfirleitt á bilinu 1-2 pund en urriðinn getur orðið stærri.