Veiðisvæði Hofsár er um 25 km langt og er uppistaða veiðinnar sjógengin bleikja, þótt stöku sjóbirtingur og lax veiðist einnig. Áin rennur í Vestari Jökulsá en á uppruna sinn upp undir Hofsjökli, úr vötnum og lækjum þar í kring. Hofsá er nokkuð mikið vatnsfall og er stundum jökullituð en í hana rennur Fossá sem kemur úr Hofsjökli. Ofan við ármót Fossár er hún að vísu tær á 5 til 6 km svæði og heitir þá Runukvísl upp að Runufossi sem er efsti veiðistaður. Veiðin hefur verið afar sveiflukennd í gegnum árin, sum árin hefur nánast ekkert veiðst en svo hafa önnur ár gefið ævintýralega veiði. Oft er besta veiðin á haustin.