Hraunhafnarvatn er stærsta vatnið á Melrakkasléttu eða 3,4 km². Vatnið er dýpst um 4 m og er í 2 m hæð yfir sjávarmáli. Hraunhafnará rennur í suðurenda vatnsins. Hraunhafnarvatn er við þjóðveginn og liggur hann við vatnið á malarifi sem er milli vatns og sjávar. Í vatninu er bæði bleikja og urriði, sem hafa dafnað vel, því vel hefur verið staðið að grisjun. Mikið er af bleikju, mest 1/2 – 1 pund en allt að þremur pundum, sem og urriða sem getur orðið allt að 6 pund. Bestu veiðistaðirnir í Hraunhafnarvatni eru við mölina og einnig á leið inn með vatninu í átt að Hraunhafnará. Út af ós árinnar er oft mikið af fallegum urriða.