Langavatn er um 5,1 km² að flatarmáli og er 36 metra djúpt þar sem það er dýpst. Það er í 215 metra hæð yfir sjávarmáli í fallegu umhverfi. Þangað rennur Langavatnsá að norðan en Beilá að austan. Úr suðvesturhorni vatnsins fellur hin kunna laxveiðiá Langá til suðurs. Langavatn hefur verið notað til vatnsmiðlunar og því getur yfirborðshæð þess verið nokkuð breytileg. Helstu veiðistaðir eru austarlega í vatninu við hólma sem eru fram undan leitarmannakofa við vatnið. Góðir veiðistaðir eru einnig við útfall Langár. Í vatninu veiðist bæði bleikja og urriði, bæði litlir og stórir fiskar, en yfir 8 punda urriðar hafa veiðst í vatninu.