Oddastaðavatn er í ákaflega fallegu umhverfi í Hnappadal vestan megin við Hlíðarvatn. Þetta er ágætt veiðivatn, er um 3 km² að flatarmáli og hefur verið mælt dýpst um 18 m þótt meðaldýpið sé mun minna. Hæð yfir sjávarmáli er um 57 m. Í vatnið rennur Hraunholtsá úr Hlíðarvatni og úr því rennur svo hin landsfræga laxveiðiá Haffjarðará. Bæði urriði og bleikja eru í vatninu og er þar mikill fiskur. Urriðinn getur orðið vel vænn en bleikjan er oftast frekar smá. Tveir hólmar, aðskildir af mjóu sundi, prýða Oddastaðavatn.