Á þessu svæði er oft góð sjóbirtingsveiði seinni hluta sumars. Veiðisvæðið er á neðsta hluta Skaftár, þó nokkuð neðan við Vatnamótin. Þar rennur Skaftáin milli sandhólma í síbreytilegum farvegi. Talsvert er um sandbleytur og þörf á fullri varúð, bæði hvað varðar bíla og menn. Lækir renna þarna frá austri í Skaftána og eru bestu veiðistaðirnir á mótum lækjar- og jökulvatns, eins og svo oft er við slíkar aðstæður. Líklega er mest veitt þarna á spón en flugan sækir á, hér sem víðar.