Fyrir botni Stöðvarfjarðar, næsta fjarðar sunnan Fáskrúðsfjarðar, rennur Stöðvará til sjávar um fallegt ósasvæði. Ekki er hún neitt stórfljót en þó fiskgeng um það bil 5 km frá sjó. Helst er von á bleikju á neðsta svæði árinnar fram undir ágúst en þá fikrar hún sig ofar í ána. Veiðirétturinn skiptist á tvær jarðir, Stöð og Óseyri, og er veiði leyfð fyrir landi Óseyrar.