Norðurá í Borgarfirði er í hugum margra veiðimanna ein besta laxveiðiá landsins með um 2000 laxa árlega meðalveiði á síðustu 10 árum. Áin á upptök sín í Holtavörðuvatni um 62 km frá sjó og telst vatnasvið árinnar vera um 518 km². Í ánni eru um 170 merktir veiðistaðir og er fjölbreytileiki þeirra mikill, allt frá nettum strengjum upp í stórar og vatnsmiklar breiður. Veiðisvæðin bjóða því upp á allt sem hægt er að hugsa sér í einni laxveiðiá. Í Norðurá eru þrír fossar helstir, Laxfoss, Glanni og Króksfoss, hver öðrum fallegri.
Lengi framan af voru fossarnir í ánni mikill farartálmi fyrir laxinn, sérstaklega Laxfoss sem er þeirra neðstur. En með tilkomu á laxastigum í Laxfossi og Glanna og lítilsháttar lagfæringu við Króksfoss, á laxinn greiða leið upp með ánni inn á heiðina.