Það er fátt skemmtilegra en að kljást við nýgengna sjóbleikju. Á Íslandi má finna frábærar sjóbleikjuár og á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru nokkrar af betri sjóbleikjuám landsins. Má nefna Hjaltadalsá & Kolku, Hrolleifsdalsá, Flókadalsá og Fljótaá í Fljótum, sem einnig er þekkt fyrir góða laxveiði. Í Eyjafjörð renna Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Eyjafjarðará. Flestar voru þessar ár að gefa um eða yfir 1000 bleikjur þegar vel lét. Eyjafjarðará var sér á báti og gaf oftast yfir 2000 bleikjur og nokkur sumur yfir 3000. En staðan er því miður sú að sjóbleikjan á undir högg að sækja og nú veiðist í sumum af þessum ám einungis þriðjungur og allt upp í tífalt minna en gerði áður.
Að veiða andstreymis með kúlupúpum hefur verið mest notaða aðferðin í sjóbleikjuveiði frá því árið 2005. Þó ekki sé hægt að staðfesta það, er sennilegt að notkun aðferðarinnar eigi eitthvern þátt í því hvernig komið er fyrir sjóbleikjunni víða. Staðreyndin er nefnilega sú að með henni fara veiðimenn að ná stóru bleikjunum “kusunum” og hér fyrr á árum var enginn kvóti. Þótti það þá sport að koma heim með stærstu sjóbleikjurnar. Sumarið 2006 voru 74% þeirra sjóbleikja, 2 kg og yfir, sem veiddust á svæði 5 í Eyjafjarðará teknar andstreymis á kúlupúpur (Högni H “Eyjafjarðará, Sjóbleikjuparadís?” powerpoint kynning 2010). Hvernig skildi þetta hafa verið undanfarin ár?
Það sem árnar eiga sameiginlegt er að í nánast öllum þeirra eru sömu flugurnar að fanga mestu veiðina. Í úrtaki, sem sýnir 18 mest notuðu flugurnar í Eyjafjarðaránum árin 2008 – 2020, eru samt sem áður straumflugur talsvert áberandi. Sennilega eru þær talsvert meira notaðar í skoluðu ánum, bæði Hörgá og Svarfaðardalsá.
Nafn flugu | Fjöldi | Nafn flugu | Fjöldi |
Krókurinn | 1109 | Blóðormur | 147 |
Stirða | 925 | Black Ghost | 95 |
Pheasant Tail | 781 | Peacock | 94 |
Nobbler | 512 | Sú | 90 |
Anna Sonja | 289 | Rollan | 88 |
Heimasæta | 271 | Beykir | 82 |
Bleik & Blá | 266 | Kúluhaus | 79 |
Mýsla | 184 | Púpa | 76 |
Dýrbítur | 166 | Grey Ghost | 66 |