Hörgá er dæmigerð dragá, köld með breytilegu vatnsmagni og oft skollituð á sumrin. Hún er þriðja stærsta áin sem rennur í Eyjafjörð á eftir Eyjafjarðará og Fnjóská. Öxnadalsá rennur í Hörgá rétt utan við Staðartungu. Í árnar renna margar hliðarár úr hliðardölum og skörðum. Barká sem er jökulsá úr Barkárdalsjökli, nær oft að lita Hörgá hressilega. Sjóbleikja fer að ganga í Hörgá í júlí og þær sem ganga lengst fram í dalina koma fyrstar en bleikjan hrygnir annars um alla á. Algeng þyngd sjóbleikju er um 0,5 – 1,0 kg en þær þyngstu eru um 3 kg. Bleikjan gengur langt fram fyrir Bakkasel í Öxnadal, að Básfossi í Hörgárdal og að Byrgisfossi í hliðaránni Myrká. Í lok ágúst og frameftir hausti gengur geld smábleikja í Hörgá, oft í stórum torfum. Á undaförnum árum hefur hlutur urriða og sjóbirtings verið að aukast í veiðinni, aðallega á neðstu svæðum árinnar. Þyngstu urriðarnir sem veiðast eru um 3 kg. Seldir eru hálfir dagar í ánna.