Fnjóská er 117 km að lengd, á upptök sín í Bleiksmýrardrögum og er ein vatnsmesta bergvatnsá landsins. Lax, sjóbleikja, urriði og staðbundin bleikja veiðist í Fnjóská en mest er um lax og sjóbleikju yfir veiðitímann. Eru göngur hvað mestar um miðbik og seinnihluta júlímánaðar. Veiðistaðir í Fnjóská eru flestir stórir og víðáttumiklir og jafnt rennsli en jafnframt mikill straumur gerir ána að frábærri fluguveiðiá. Efri hluti Fnjóskár er gjarnan nefndur silungasvæðið, enda er uppistaðan í veiðinni silungur þó svo að nokkrir laxar veiðist þar á hverju ári. Meðalveiði er um 100 bleikjur og 5 – 10 laxar á sumri .