Sumarið 2020 var metveiði í Jöklu, en hún gaf þá 870 laxa. Margir stórir laxar komu þar á land og m.a. var 107 cm lax sem Jules Goldberg landaði þar 17. júlí einn af stærstu löxum sumarsins. Efsti veiðistaðurinn er Tregluhylur og nær svæðið niður að veiðistaðnum Skipalág í Jökulsárhlíð, ásamt hliðaránum Laxá og Kaldá. Síðla ágúst bætist Fögruhlíðará við þetta svæði enda er þá orðin meiri hætta á yfirfalli og veiði nánast eingöngu stunduð í hliðaránum. Þetta er gríðarlega mikið og fjölbreytt svæði þar sem veitt er í miklu vatni í Jöklu og allt niður í litlar og nettar ár eins og Laxá sem er hentug fyrir einhendur. Samtals er svæðið um 50 km langt og því verður afar rúmt um veiðimenn og miklir möguleikar á því að kanna ótroðnar slóðir. Svæðið er venjulega selt í tveggja eða þriggja daga hollum og er skyldufæði í Veiðihúsinu Hálsakoti. Þó er einnig boðið upp á staka daga seint á veiðitímabilinu án skyldugistingar og fæðis. Þó aðallega sé stunduð laxveiði á svæðinu er þar einnig silungur, aðallega er það sjóbleikja og eru þær stærstu um 65 cm.
Mörgum þykir langt að aka alla leið austur í Jöklu frá Reykjavík, en einfalt er að fjúga til Egilsstaða og leigja bíl á Egilsstaðaflugvelli og stytta þar með ferðatímann gríðarlega.