Þetta veiðisvæði var áður eingöngu Fögruhlíðarósinn og neðsti hluti Fögurhlíðarár en 2022 varð sú breyting að það er nú öll Fögruhlíðará ásamt neðsta hluta Jöklu sjálfrar. Stóreykst laxveiðivonin með þessum breytingum og með góðri silungsveiði verður þetta mjög spennandi valkostur á hóflegu verði. Mikill lax gengur um þetta svæði á leið upp Jöklu og hefur það lítið sem ekkert verið stundað til þessa. Svæðinu fylgir einnig Kaldárós sem hefur oft gefið góða veiði á bæði sjóbleikju og laxi sem bíður eftir því að ganga upp í Kaldá. Í boði verður gisting í Veiðihúsinu Hálsakoti í nýrri gistiaðstöðu sem byggð verður fyrir sumarið. Svæðið er kjörið fyrir smærri hópa þar sem stangirnar þrjár eru seldar saman. Þetta nýja veiðisvæði er afar fjölbreytt og allir veiðimenn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Hvort sem er góða sjóbleikjuveiði, lax, urriða eða sjóbirting. Veiðitími er frá 1. júní til 20. ágúst en eftir það verður svæðið hluti af Jöklu svæðinu.