Rangá kemur úr vatni sem nefnist Sandvatn og rennur svo í Lagarfljót. Í uppánni má finna urriða og er hann frekar smár. Í neðri hluta árinnar var á árum áður töluvert af bleikju og þar sem hún rennur í Lagarfljót var oft hægt að lenda í mokveiði. Nú er sagan önnur, en veiðin er sögð hafa spillst við virkjunarframkvæmdirnar að Kárahnjúkum. Rangá er fiskgeng upp að fossi sem kenndur er við Fjármela sem er ekki langt frá bænum Skóghlíð. Þarna rennur hún í gili, þar sem finnast veiðihyljir sem erfitt er að komast að. Um þremur km fyrir neðan fossinn snarbeygir áin til norðausturs og er þar alls staðar veiðivon. Þaðan eru 7-8 km niður í Lagarfljót. Nokkuð neðan við brúna, þar sem þjóðvegurinn liggur yfir ána, eru nokkrir fallegir hyljir. Þekktasti veiðistaðurinn, Árkrókur, er þar sem beygja er á ánni og Merkjalækur rennur í hana. Best mun veiðin vera miðsumars og fram eftir hausti, ef vatnbúskapur er góður.