Kelduá er dragá í Fljótsdalshreppi í Norður-Múlasýslu. Upptökinn eru í Kelduárvatni við Geldingafell, austan Eyjabakkajökuls. Fellur áin fyrst um heiðarlönd og síðan um Suðurdal allt til botns Lagarfljóts. Í Kelduá er mikið af urriða, sem oftast er þó frekar smár. Á sínum tíma var það aðallega bleikja sem menn fengu upp úr ánni, en hún er nú að mestu leyti horfin. Var hún ættuð úr Leginum, en urriðinn er staðbundinn. Nokkrir álitlegir veiðistaðir eru í Kelduá. Sá efsti er undir foss, sem ekki er fiskgengur, og nefnist hann Faxahylur. Fyrir neðan bæinn Víðivelli fremri er mikill hylur sem nefnist Hrakhamarshylur, er hann talinn einn vænlegasti veiðistaðurinn í ánni. Við ármót Kelduár og Jökulsár í Fljótsdal er Ferjuhylur, ágætur veiðistaður sem gaf oft góða bleikjuveiði.