Jökulsá í Lóni er á Suðausturlandi og á upptök sín í Vesturdalsjökli. Hún rennur í gegnum hrikalegt landslag Lónsöræfa áður en hún kemur niður á flæðurnar í Lóni og lýkur sinni ferð í Lónsvík. Árið 2004 var opnuð göngubrú, sú stærsta á landinu, þar sem áin kemur niður að Eskifelli.
Jökulsá í Lóni getur tæpast talist veiðilegt vatnsfall við fyrstu sýn. Samt gengur í hana þó nokkuð af sjóbleikju, sem hrygnir í bergvatnslækjum er í hana falla. Veiðst hefur bleikja lengst inn undir Lónsöræfum. Eru það einna helst Fiskilækirnir sem sjóbleikjan nýtir sér sem hrygningarstöðvar og þar er hægt að fá talsverða veiði. Ágæt veiði hefur verið ofan við ármót Skyndidalsár en þangað eru 7-8 km frá þjóðveginum. Einnig er veitt í ánni neðan þjóðvegarins. Þarna er hægt að fá bleikjur allt að fjórum pundum. Best er veiði í sjálfri Jökulsánni á haustin, þegar hún er orðin nokkuð tær.