Silungasvæði Tungufljóts hefur verið á uppleið síðustu ár og þeir sem hafa lagt sig fram hafa oft á tíðum veitt vel. Svæðið er afar víðfemt, svo vel er rúmt um þær 8 stangir sem er leyft að veiða á. Þarna eru margir álitlegir veiðistaðir, allt frá stórum straumhörðum hyljum til lítilla lygnubakka í þveránum. Straumfluga er besta agnið í aðal ánni, en tilvalið að reyna sig við andstreymisveiði og jafnvel þurrflugu í hlíðaránum. Urriðinn getur orðið mjög vænn og þeir sem best þekkja til gera ósjaldan fína veiði. Oft er góð veiði í ármótum, þar sem Beiná og Laugá falla í Almenningsá og svo þar sem sú síðastnefnda fellur í Tungufljót.