Djúpavatn er 0,15 km² stöðuvatn, sunnan Trölladyngju og Soga á Reykjanesskaga, í 195 m hæð yfir sjó. Dýpsti hluti þess er 16,7 m og er það líklega gígvatn. Umhverfi þessa vatns er ákaflega fallegt og friðsælt. Mikið er af bleikju í vatninu en hún er fremur smá. Það var talið fisklaust þar til bleikju af Þingvallastofni var sleppt í það í kringum 1960. Vatnið er afar vinsælt hjá fjölskyldufólki, umhverfið er mjög barnvænt og einungis selt einum aðila/hópi í senn. Á hverju ári er sleppt töluverðu af vænum urriða í vatnið og því er veiðivon góð allt sumarið. Veiðimenn eru beðnir um að gæta hófs í því sem þeir hirða af sleppifiski og kynna sér vel þær reglur sem þarna gilda.