Skorradalsvatn er mikið og stórt og liggur í um 58 metrum yfir sjávarmáli. Vatnið er um 16 km langt en þó ekki nema um 1 ~ 1.5 km að breidd að stærstum hluta. Það er djúpt, eða um 48 metrar þar sem það hefur verið mælt dýpst, en meðaldýptin er um 22 metrar. Úr vatninu rennur Andakílsá, sem er þekkt laxveiðiá, og í vatnið rennur Fitjaá úr Eiríksvatni. Í Skorradalsvatni er mikið af fiski, að stærstum hluta smábleikja, en þarna eru einnig risavaxnar bleikjur og gríðarvænir urriðar. Hins vegar hefur reynst fremur erfitt að veiða þessa fiska á stöng frá bakka og flestir af þessum stóru fiskum koma á þegar trollað er af báti með stórum spúnum eða þeir eru veiddir í net. Þetta er þó ekki algilt og alltaf veiðast fallegir silungar á stöng ár hvert, þeir vænstu snemmsumars eða að hausti. Skorradalsvatn er nokkuð aðgrunnt næst landi en svo dýpkar það hratt. Fengsælt hefur verið t.d. undan Stóru Drageyri þar sem lækurinn rennur niður í vatnið.