Guðni Már Kárason með fisk úr Korpu
„Við Guðni skelltum okkur óvænt í veiði í Korpuna í fyrradag,“ sagði María Hrönn Magnúsdóttir og bætti við; „við áttum veiði í Tungufljóti um helgina en gátum ekki farið og þvi hungraði okkur í veiði og hentugt að vera innanbæjar. Ég hef svo sem ekki haft neina sérstaka trú á vorveiðinni í Korpu, en þar hafði ég rangt fyrir mér. Þessi litla og netta á leynir á sér. Við byrjuðum ekki fyrr en um hádegi og fórum þá alveg upp að vatni. Annað hvort höfum við verið búin að fæla þá af brúnni eða enginn fiskur hafi verið þar. Við alla vega sáum ekkert. Þaðan fórum við í Stokkana. Fljótlega eftir að við byrjuðum þar var kominn 1 urriði. Bætist svo annar við og
svo einn sjóbirtingur heldur neðar í Stokkunum. Þaðan héldum við í Stífluna en ákvæðum fljótlega að sleppa henni þar sem óhagstæður vindur var þar og einnig vissum við að töluvert er af Hoplaxi þar sem við vildum gefa frið.
Því næst var stefnan tekin í Túnhyl í von um sjóbirting. Flugan hafði varla snert vatnið er hann var á en ekki var það sjóbirtingur eins og vonast var eftir heldur Hoplax. Fórum við þá alveg neðst í ánna og reyndum stuttlega við Rennur og Berghyl. Þurftum við að hætta veiði um sexleytið og vorum við bara mjög sátt með daginn. Ég mun klárlega fara aftur í vorveiði í Korpuna,“ sagði María enn fremur.
Ljósmynd: María Hrönn Magnúsdóttir ætlar klárlega aftur í Korpu
Veiðar · Lesa meira