Þetta vatnasvæði er í Aðalvík og heyrir ósinn og stór hluti vatnsins undir eyðibýlið Stakkadal. Stakkadalsvatn er í 5 m hæð yfir sjó og flatarmál þess er um 0.29 km². Í það falla Stakkadalsá og Reyðardalsá og svo lítil á úr Torfavatni. Á allt þetta vatnasvæði gengur sjóbleikja, sjóbirtingur og stöku laxar veiðast í ósnum. Veiði getur verið góð og sérstaklega þó í ósnum. Einnig er talsverða veiði að fá í ánum. Mest er þarna af sjóbleikju sem er að megninu til tveggja til þriggja punda. Sjóbirtingsgengdin hefur farið vaxandi en ekki er mikið af laxi. Helst er að hann fáist á veiðistað í ósnum sem kallast Skjónuhylur. Landeigendur hafa nýtt veiðiréttinn en öllum sem eftir því falast er leyft að veiða á vatnasvæðinu.