Fljótavatn er í Sléttuhreppi í N-Ísafjarðarsýslu, nánar tiltekið í Fljótavík á Hornströndum. Það er 3,9 km² að flatarmáli, frekar grunnt og í 1 m hæð yfir sjó. Bæjará, Svíná, Hvanná, Reyðá og fleiri lækir falla í það, en útfallið er um ós sem er kenndur er við Atlastaði. Í Fljótavík er myljandi bleikjuveiði, bæði í ósnum, vatninu og ánum sem í það falla. Þar veiðist bæði sjóbleikja og vatnableikja og er sjóbleikjan, eins og þekkt er, rauðari á holdið og bragðbetri. Einnig veiðist urriði í vatninu og eitthvað af sjóbirtingi en hann er oftast fremur smár. Veiðin er best í júní og fram í júlí. Vegasamband er ekkert og samgöngurnar eru oftast sjóleiðina. Einnig má lenda litlum flugvélum á sandinum niðri við sjóinn. Öllum ferðamönnum, sem leið eiga um Fljótavík, er velkomið að veiða sér í soðið. Þeir verða þó að hafa samband við landeigendur og eru beðnir að gæta hófs við veiðarnar.