Frumvarp þriggja matvælaráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs – hefur reynst gríðarlega umdeilt eftir að frumvarpið tók stakkaskiptum eftir umsagnarferli en fjöldi náttúruverndarsamtaka vilja meina að núverandi drög frumvarpsins nái alls ekki markmiðum þess. Í frumvarpinu segir orðrétt: „Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.“ Gagnrýnin lítur helst að því að frumvarpið skapar ekki skilyrði sjálfbærrar uppbyggingar né tryggir vernd villtra laxastofna og umhverfis. Því hafa náttúruverndarsamtök auk fjölda aðila sem hafa miklar áhyggjur af stöðu villta laxastofnsins og lífríki Íslands mótmælt frumvarpinu harðlega. Þá hafa erlend samtök og náttúruverndarsinnar látið málið til sín taka.
Í kjölfar umhverfisspjalla sem áttu sér stað síðastliðið haust þegar íslenskar ár fylltust af eldislöxum hóf Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) undirskriftarsöfnun ásamt samstarfsaðilum undir heitinu „Þetta leyfðum við, bætum fyrir það“ en þar er byggt á þeirri staðreynd að stofnstærð villta Norður-Atlantshafslaxins hefur minnkað um 70% á undanförnum 25 árum. Í Noregi, Skotlandi, Kanada og Bandaríkjunum er lítið orðið um ómengaða stofna Atlantshafslax vegna erfðablöndunar við eldislax og því þarf að leggja af allt sjókvíaeldi við strendur Íslands. Í sjókvíaeldi á Íslandi er notast við framandi, frjóa, norska tegund og vitað er að eldisfyrirtækjum hefur alls staðar í heiminum reynst ómögulegt að halda eldislaxinum í sjókvíum. Ein afleiðing þessa var eitt stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar þegar 3.500 eldislaxar sluppu úr sjókví Arctic Fish á Patreksfirði með þeim afleiðingum að á fimmta hundrað eldislaxa veiddust í þekktum ám um allt land og rataði sá súrrealíski farsi beint í áramótaskaupið. Ekki er enn vitað hve mikið af eldislaxi náði að hrygna í íslenskum ám síðastliðinn vetur og mun það taka einhver ár að ná utan um umfang tjónsins.
NASF, ásamt samstarfsaðilum á borð við Icelandic Wildlife Fund, Landssamband Veiðifélaga, Aegis, Völu Árnadóttur, Landvernd, VÁ!, Patagonia og fleiri hafa á undanförnum vikum lagt ríka áherslu að Ísland sé síðasta athvarf villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi. Eins og útlitið er með lagareldisfrumvarpið núna þá mun villti íslenski laxastofninn deyja út á komandi árum ef ekki verður gripið strax til aðgerða. Þessi samtök ásamt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar telur að það verði að stöðva sjókvíaeldi, annars er meðvitað verið að endurtaka mistök annara þjóða og þar með dauðadæma villtan lax og náttúru.
Undirskriftarlisti með rúmlega 46 þúsund undirskriftum, var afhentur í dag forseta alþingis, matvælaráðherra og formanni atvinnuveganefndar með táknrænni athöfn þar sem „norskir“ rekkafarar afhentu illa farna eldislaxa úr pappa, með undirskriftum fólks árituðum á þá en hver lax táknar þannig meira en 11 þúsund undirskriftir. Laxinn sem sjá má á myndunum slapp úr kvíum Arctic Fish haustið 2023, og veiddist í á meira en 300 km frá sjókvíunum. Laxinn er illa étinn af lús, með djúp sár á höfði og því miður var þetta algeng sjón síðastliðið haust.
Skoðanakannanir á Íslandi sýna að 70% íslensku þjóðarinnar er mótfallin sjókvíaeldi og umhverfisslysum iðnaðarins, en einungis 10% eru fylgjandi iðnaðinum sem skapar einungis örfá störf á sama tíma og fjölda starfa og annarra verðmæta er fórnað.
NASF hvetur aðila sem annt er um villta laxastofninn og náttúru Íslands að mótmæla lagareldisfrumvarpinu með því að setja þrýsting á þingmenn síns kjördæmis.
###ENDIR###
Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri NASF á Íslandi í síma 823 3248 eða með tölvupósti; [email protected]
Ljósmynd: Fyrir framan Alþingishúsið
Veiðar · Lesa meira