Kolgrímsvötn eru á suðaustanverðri Aðalbólsheiði í Vestur-Húnavatnssýslu og eru öll í um 550 m hæð yfir sjávarmáli. Þau eru þrjú talsins og er það Veiðifélag Víðidalstunguheiðar sem fer með veiðiréttinn. Flatarmál vatnanna er frá 0.11 og upp í 0,40 km². Þarna hefur verið stunduð talsverð netaveiði og þannig tekist að viðhalda stærð bleikjunnar en mest er um eins til tveggja punda fiska. Vötnin eru grunn og voru því lengi ekki talin henta til stangveiða. Það hefur nú verið afsannað. Leiðin að vötnunum er seinfarin, en best er að fara 45 km langan jeppaveg upp frá Víðidal og er það þriggja tíma skjökt á breyttum bílum.