Upprisa spurningaspilsins Makkerinn er nú hafin og getur veiðifólk sem og landsmenn allir fagnað. Upphaflega átti spilið að koma út síðasta haust en vegna tafa í framleiðslu og flutningum þá barst spilið aðeins nokkrum dögum fyrir jól í fyrra, og náði þessvegna ekki því flugi sem vonir stóðu til um. En nú er Makkerinn farinn á fulla ferð og nær því vonandi að rata í hendur veiðifólks.
Makkerinn er fjörugt og fróðlegt spurningaspil þar sem þátttakendur kafa ofan í heim stangveiðinnar á Íslandi. Spilið er stútfullt af fróðleik og áskorunum sem reyna á kunnáttu þátttakenda á ýmsum sviðum. Spilið inniheldur 1470 spurningar sem skiptast í fimm flokka sem eru Þríkrækjan, Makkerinn segir, Fluguboxið, Í fyrsta kasti og 20 pundarinn.
Hvort sem þú ert reyndur veiðimaður eða nýgræðingur, þá er Makkerinn fyrir alla. Makkerinn er ekki aðeins frábær leið til þess að fólk komi saman því þar er einnig að finna fróðleik um sögu íslenskrar náttúru, landafræði og veiðistaði landsins. Ekki þarf að vera forfallinn veiðiáhugamaður til að taka þátt og hvað þá sigra í leiknum, en fyrsti sigurvegari Makkersins á heimsvísu er ekki forfallinn stangveiðinörd!
Höfundur Makkersins er Mikael Marinó Rivera kennari og forfallinn stangveiðimaður .
Spilið fæst í öllum helstu veiðibúðum landsins og einnig flestum verslunum Hagkaups og Pennanum/Eymundsson og netverslunum þeirra. Spilið fer svo í enn frekari dreifingu á næstu vikum. Makkerinn er tilvalin gjöf fyrir allt veiðifólk.
Veiðar · Lesa meira