Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) undanfarin ár. Félagið hagnaðist um 10 milljónir króna á síðasta rekstrarári og nemur eigið fé félagsins nú 144 milljónum króna. Til samanburðar nam eigið fé einni milljón árið 2020. Þetta kom fram á aðalfundi SVFR, sem fór fram í Akóges-salnum í Lágmúla í gærkvöldi, en um 40 félagsmenn mættu á fundinn.
Helga Jónsdóttir, gjaldkeri SVFR, fór yfir ársreikninginn á fundinum. Sagði hún mikilvægt að benda á að vegna fjárskuldbindinga félagsins þyrfti það að hafa borð fyrir báru í rekstrinum. Af þeim ástæðum væri mikilvægt að eiginfjárstaðan væri góð.
Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri SVFR, fór yfir rekstraráætlun ársins 2025. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir því að félagið skili ríflega 30 milljóna króna hagnaði á núverandi rekstrarári.
Ragnheiður áfram formaður
Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR, var ein í framboði til formanns og því sjálfkjörin. Hún hefur nú sitt þriðja kjörtímabil sem formaður en formannskjör fer fram árlega. Líkt og í fyrra kynnti hún skýrslu stjórnar á myndrænu formi og mæltist það afar vel fyrir. Hér er hlekkur á myndbandið.
„Góður rekstur, aðhald og viðvarandi rýni á öllum tekju- og kostnaðarliðum er lykilatriði fyrir SVFR,“ sagði Ragnheiður. „Stjórn félagsins tekur það hlutverk alvarlega og mun áfram beita sér fyrir hagkvæmni í rekstri og framförum í þjónustu við félagsmenn.“
Nýir samningar
Ragnheiður greindi jafnframt frá því að á síðasta rekstrarári hafi nokkrir nýir samningar verið undirritaðir.
„Samningur um urriðasvæðin í Mývatnssveit og Laxárdal var endurnýjaður og nýr gerður við Veiðifélag Gufudalsár. Þá mun Vatnsdalsá í Vatnsfirði renna undir merkjum SVFR næstu árin. Þetta er lítil tveggja stanga lax- og bleikjuveiðiá, sem smellpassar inn í árflóru félagsins.
Nýr langtímasamningur um veiðiréttinn í Langá tók gildi á árinu, þar sem samningsaðilar tóku saman höndum um margvíslegar umbætur. Þannig studdi SVFR við stækkun veiðihússins, sem nú er orðið eitt það glæsilegasta á landinu, og landeigendur réðust í lagfæringar á veiðistöðum.“
Óbreytt stjórn
Þrír voru í framboði um þrjú laus sæti í stjórn SVFR og var því sjálfkjörið. Þeir stjórnarmenn sem voru í framboði og eru sjálfkjörnir eru: Brynja Gunnarsdóttir, Dögg Hjaltalín og Helga Jónsdóttir. Auk þeirra sitja í stjórn félagsins þau Hrannar Pétursson, Halldór Jörgensson, Trausti Hafliðason og Ragnheiður Thorsteinsson formaður. Stjórnin er því óbreytt á milli ára.
Fimm voru í framboði um fimm laus sæti í fulltrúaráð SVFR og var því sjálfkjörið. Þeir sem voru í framboði til fulltrúaráðs og eru sjálfkjörnir eru: Ásmundur Gíslason, Elín Ingólfsdóttir, Emil Gústafsson, Harpa Groiss og Þórólfur Halldórsson.
Sæmd silfurmerki
Á aðalfundinum voru tveir félagsmenn sæmdir silfurmerki SVFR. Þetta voru þau Lára Kristjánsdóttir, sem sat í stjórn félagsins frá 2020 til 2022, sem og Guðmundur Gunnar Hallgrímsson, sem fyrrverandi formaður árnefndar Gufudalsár.
Hreykinn af því að vera í SVFR
Undir liðnum önnur mál á aðalfundinum bað Þórólfur Halldórsson um orðið. Þórólfur, sem er með félagsnúmerið 2 í Stangaveiðifélaginu, er mörgum félagsmönnum kunnur enda verið virkur í félagsstarfinu og situr í fulltrúarráðinu.
Sagðist Þórólfur hafa verið félagi í SVFR í mörg ár og lýsti hann sérstakri ánægju með jákvæðnina sem umlyki félagið í dag. Yndislegt væri að sjá að allir væru að gera sitt besta og sagðist hann hreykinn af því að vera í Stangaveiðifélaginu í dag.
Veiðar · Lesa meira