Eyjafjarðará hefur síðustu ár styrkt sig í sessi sem afar áhugaverð sjóbirtingsá. Segja má að þær breytingar sem hafa orðið á landsvísu, þar sem bleikja hefur átt undir högg að sækja og sjóbirtingur verið að eflast hafi heldur betur komið skýrt fram í Eyjafjarðaránni.
Áin opnaði á mánudag og hefur byrjunin verið hreint ágæt, að sögn þeirra sem hafa veitt fyrstu dagana. Snjókoma fyrri hluta dags í gær gerði það að verkum að menn voru ekki að flýta sér og hófu ekki veiðar fyrr en eftir hádegi. Opnunardagurinn hafði gefið ágætlega og var um þrjátíu birtingum landað á mánudag. Leiðsögumenn úr Vopnafirði eru fyrsta holl í ánni. Síðari hluta dags í gær hlýnaði og tók upp snjó. Þá rifu veiðimenn sig upp úr sjónvarpsglápi og héldu til veiða.
Denni lenti í hörku fjöri neðarlega á svæði eitt. Hér er búið að landa einum af mörgum. Ljósmynd/Stefán Hrafnsson
mbl.is – Veiði · Lesa meira