Eins og oft áður hefur gæðunum verið afskaplega misskipt í sjóbirtingsveiðinni á fyrstu dögum veiðitímans. Munurinn nú er þó meiri en oft áður þegar kemur að fjölda fiska. Tungulækur er enn og aftur með afbragðsveiði að vori. Þar voru á hádegi í dag komnir í bók 326 birtingar og það á þrjár stangir á átta og hálfum degi. Það lætur nærri að vera þrettán fiskar á stöng á dag og það er hlutfall sem þykir gott hvar sem er í heiminum.
Veiðin í Geirlandsá byrjaði af krafti og opnunarhollið var með góða veiði. Vatnamótin hafa verið að gefa hörku veiði síðustu daga eftir að enginn fiskur var skráður þar fyrstu dagana, hver sem ástæðan kann að vera fyrir því.
Guðmundur Birgisson með 91 sentímetra birting úr Tungulæk í morgun. Sá stærsti til þessa þar á bæ, það sem af er veiðitímabilinu. Ljósmynd/Theodór K. Erlingsson
mbl.is – Veiði · Read More