Kelduvíkurvatn er skráð í eigu Þangskála, en eins og með mörg önnur vötn á þessu svæði eru það bændur á Hrauni sem sjá um sölu veiðileyfa. Vatnið er 0,3 km² að flatarmáli og örstutt er í það frá þjóðveginum. Í vatninu er bleikja sem er 1-2 pund að stærð, en einnig urriði sem er allvænn. Heyrst hafa sögur um urriða frá 3-6 pundum. Vatnið skiptist til helminga frá læknum sem er fyrir því miðju. Nyrðri hlutinn er fyrir landi Hrauns. Verð veiðileyfa er tiltölulega hátt þar sem einungis er selt í hálft vatn í senn og borga þarf tvöfalt ef veiða á í öllu vatninu. Reynst hefur vel að fara ekki langt út í og kasta með bakkanum. Þar er malarkantur og virðist fiskurinn frekar vilja dóla þar en úti í vatninu.