Veiðisvæðið: Veiði er heimil á öllu vatnasvæðinu, þ.e.a.s. Ölvesvatni, Fossvatni, Selvatni, Heyvötnum, Grunnutjörn, Andavatni, Stífluvatni, Eiðsá, Fossá, auk annarra lækja sem renna á milli vatna.
Andavatn
Þetta er frekar lítið vatn sem liggur vestan við svokallaðan Ketubruna. Um 20 mínútna gangur er í norð-vestur frá Grunnutjörn að Andavatni. Góð bleikja er sögð ráðandi í vatninu en þokkalegur urriði finnst þar einnig. Helst er veitt frá útfallinu norður með austurströndinni. Mest er bleikjan um eitt pund en stærri fiskar veiðast stöku sinnum, allt að 4 pundum.
Grunnatjörn
Þetta litla vatn er ekki nafngreint á helstu kortum en það er skammt Norð-vestan við Ölvesvatn. Bleikja er ríkjandi tegund en einnig fæst urriði. Bleikjan er að mestu smá en ein og ein stærri slæðist gjarnan með. Eitthvað hafa menn veitt í Grunnutjarnarlæk sem rennur til Ölvesvatns, helst þá í hyljum ofarlega í læknum.
Stífluvatn
Stífluvatn er að finna Suð-vestan við Ölvesvatn og er þangað nokkur gangur frá veiðihúsunum þar sem komið er að Ölvesvatni. Eins og í hinum vötnunum er bleikja ríkjandi tegund í Stífluvatni þótt urriða sé þar einnig að finna. Að sögn Bjarna á Hvalnesi er jafnbestu bleikjuna á öllu vatnasvæðinu að finna í Stífluvatni. Talsvert er af fiski sem er frá tveimur og upp í þrjú pund að þyngd. Helstu veiðistaðir eru við útfall Stífluvatnslækjar, sem rennur til Ölvesvatns, og svo á ströndinni á milli hans og þess lækjar sem rennur í vatnið.
Fossvatn
Skammt austan Ölvesvatns, sunnan veiðihúsanna, er Fossvatn. Það er í 150 m hæð yfir sjó og 0.27 km² að flatarmáli. Urriði er þar öllu liðfleiri en bleikja og er oft vænni en í Ölvesvatni. Þarf að vaða talsvert út í vatnið til að eiga von á þeim stóru. Oft er góð veiði við ós Eiðsár, en þar veiðist oft bleikja sem sækir þar í æti og kalt vatn á hlýjum dögum. Með ströndinni og þar sem Fossá fellur úr vatninu til austurs er oft góð veiði. Veiði er í Fossá, einkum urriði, en fiskur þar er oftast frekar smár.
Selvatn syðra
Selvatn, sem er næst stærst vatnanna í landi Hvalness, er talsvert Suð-austan við Ölvesvatn. Það er í 150 m hæð yfir sjó, líkt og Fossvatn, og 0.73 km² að flatarmáli. Selvatn er dýpst vatna á svæðinu eða um 16 m þar sem það er dýpst. Akfært er inn að Selvatni frá slóðanum upp að Ölvesvatni á Skaga, en ástand þess vegar er langt frá því að vera gott. Urriði er ráðandi í vatninu og það í töluverðu magni, en ekki mjög stór. Eins og víða eru bestu veiðistaðirnir við ósa og útfall ánna í vatninu og svo með norðurstöndinni.