Þingvallavatn er ekki lengur svipur hjá sjón. Þetta magnaða veiðivatn sem gaf flottar bleikjur og oft mikið af henni og risaurriða er nú á þeim stað að margir hafa gefist upp á því. Gott dæmi um það er Örn Hjálmarsson, einn af þeim silungsveiðimönnum sem hafa náð langt og veiða yfirleitt vel. Í blaðinu Veiði XIV, nýútkomnu tímariti Veiðihornsins er hann spurður um Þingvallavatn og hvort hann fari mikið þangað. „Ekki lengur. Ég fór einu sinni í fyrra og fékk tvær fallegar bleikjur en mér finnst Þingvallavatn ekki orðið svipur hjá sjón í bleikjuveiðinni,“ svarar Örn.
Einn af þeim sem hafa stundað Þingvallavatn af kappi og það frá því fyrir aldamót er Cezary Fijalkowski. Hann hefur náð frábærum árangri í veiði í vatninu og hann hefur deilt ótal myndum af sér með risavaxna urriða sem hann hefur veitt í vatninu. Nú er öldin önnur og páskaveiðin hjá Cezary byggist nú á mun smærri fiskum en fyrir nokkrum árum. Hann birti nýverið hugleiðingar sínar um Þingvallavatn á Facebooksíðu sinni. Þar setur hann fram þá skoðun sína að vatnið sé í raun ofsetið þegar kemur að urriðanum. Það hafi leitt til þess að stofnar murtu og bleikju hafi hrunið. „Ég hef rannsakað í þrjátíu ár. Bæði frá ströndinni en líka á báti og notað sónar. Það er engin fæða í vatninu og það hefur leitt til þess að fiskurinn er bæði illa haldinn og lítill,“ skrifar Cezary.
Cezary Fijałkowski með 96 sentímetra og ellefu kílóa urriðann sem hann veiddi seint í ágúst 2018 í Þingvallavatni. Þessir urriðar sjást varla lengur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is – Veiði · Read More