Það er víða búið að vera gaman hjá silungsveiðimönnum í ám og vötnum á síðustu dögum. Hlýindin og birtan kveikja á lífinu. Skordýrin fara á stjá og þá aukast líkur á fiski og svo er það veiðimaðurinn sem er kominn á fullt.
Veiðimenn sem hafa verið í sambandi við Sporðaköst hafa sagt frá veiði og ævintýrum í kringum þau. Er engu líkara en að þau ævintýri komi á færibandi þessa síðustu daga. Þeir Víkingur Manúel Elíasson og Páll Gísli Jónsson gerðu góða ferð í það vanmetna veiðivatn Laugarvatn um helgina. Þeir settu í nokkra urriða, bæði á maðk og flugu. „Þetta var þræl skemmtilegt. Aðeins kalt en það fylgir þessum árstíma. Vanalega hef ég verið að veiða bleikju þarna en núna var urriði á svæðinu. Við lönduðum tveimur og þetta voru flottir urriðar,“ sagði Páll í samtali við Sporðaköst. Hann er einn af þessum sem er með ódrepandi veiðidellu. Er það ekki? „Jú. Það er víst. Við fórum eitt árið í Laugarvatnið í febrúar og vorum þá að kasta flugu á ísinn og draga hana fram af skörinni. Við vorum að nota Langskegg og þær negldu þetta um leið og Langskeggurinn datt út í. Við fengum á stuttum tíma einhverjar tíu bleikjur,“ hlær hann.
Góður urriði úr Laugarvatni. Víkingur Manúel Elíasson fékk hann á maðk og var alsæll en mældist hann ríflega 50 sentímetrar. Ljósmynd/Páll Gísli
mbl.is – Veiði · Lesa meira