Ólafsfjarðarvatn er um 2,3 km² að flatarmáli; um 3 km á lengd og um 1 km á breidd þar sem það er breiðast og mesta dýpi er 11 metrar. Vatnið er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Það er lagskipt með fersku og söltu vatni, og sums staðar eru hlý vatnslög, og er á náttúruminjaskrá vegna þessara eiginleika. Allgóð silungsveiði er í Ólafsfjarðarvatni. Þar er helst sjóbleikja og staðbundinn urriði. Dorgveiði er þar frá febrúar uns ísa leysir. Í mestu stórstraumsflóðum streymir sjór inn í vatnið, þannig að það er salt við botninn. Þar veiðast fiskar, sem annars lifa í sjó, s.s. marhnútur, koli, þorskur, ufsi og jafnvel síld. Frekar hefur þó dregið úr veiði sjófiska hin síðari ár. Bændur hafa netalagnir í vatninu á sumrin og veiðist oft nokkuð vel.