Ljósavatn er 3,2 km² að flatarmáli, dýpst 35 m og er í 105 m hæð yfir sjó. Aðrennsli er frá Geitá, Litlutjarnarlæk og Kambsá og frárennslið er Djúpá, sem fellur til Skjálfandafljóts. Mest er af bleikju, ½-1 pund, og einhver urriði sem getur orðið nokkuð stór. Nokkur netaveiði er í vatninu og mætti vera meiri. Þjóðvegur nr. 1 liggur meðfram vatninu í Ljósavatnsskarði og hægt er að aka í kringum það. Vatnið er mjög vinsælt meðal veiðimanna og mjög hentugt fyrir fjölskyldur. Jafnan veiðist best á vorin, frá maí og fram í miðjan júlí. Góðir veiðistaðir eru austan megin við vatnið, við ósa lækja og þar sem Kambsá fellur í það. Einhver dorgveiði er einnig stunduð á Ljósavatni og fást þá ágætir urriðar.