Starir ehf, sem er leigutaki nokkurra laxveiðiáa á Íslandi hefur samið við jörðina Auðsholt í Ölfusi um leigu á veiðirétti fyrir landi jarðarinnar. Með þessu er tryggt að netaveiðiréttur sem jörðin á, verður ekki nýttur í sumar, þess í stað verður stunduð þar stangveiði.
Um er að ræða tvær jarðir sem skipta með sér veiðiréttinum. Það er Auðsholt og Auðsholtshjáleiga. Hefur skiptingin verið þannig að hjáleigan hefur haft 25% af veiðirétti en sjálft Auðsholt átt 75%.
Pétur Bjarnason og Ágústa Björnsdóttir keyptu Auðsholt fyrir tveimur árum og hafa ekki nýtt netaveiðiréttinn. Vilja þau stuðla að því að styrkja laxastofninn á svæðinu og hafa því ekki sett út net í Ölfusá. Hjáleigan hefur hins vegar stundað netaveiði og það með góðum árangri. Nú hefur hjáleigan veitt í net í tvær vikur og þar með nýtt sinn rétt að fullu, að því er heimildamenn Sporðakasta fullyrða. Nú eru netin komin á þurrt og munu Starir selja stangveiðileyfi á svæðinu í sumar.
Netin komin á þurrt í land Auðsholts í Ölfusi. Auðsholtshjáleiga veiddi í net fyrstu tvær vikur júlí, en nú tekur við stangveiði. Ljósmynd/Starir
mbl.is – Veiði · Lesa meira