Fátt er skemmtilegra en að veiða sjóbleikju á stöng. Hún hefur afar einstakan karakter, getur tekið um stund af mikilli ákefð en á það til að skipta um gír og líta ekki við neinu. Stundum eltir hún flugur eða aðra beitu og rétt svo glefsar í hana án þess að maður festi nokkurn tíman í henni. Þetta á það til að reyna töluvert á skapferli veiðimannsins. Samt sem áður, eru ófair veiðimenn sem setja sjóbleikjuna efst á lista yfir eftirsóknaverðan andstæðing.
Það fjölbreytta fæðuval sem sjóbleikjan velur sér, gerir hana að eftirsóknarverðum fiski að veiða á flugu og stangveiðimenn geta haft úr óteljandi fyrirmyndum að moða. Til að árangur náist, er því mikilvægt að vita dálítið um fæðuflóru sjóbleikjunnar og kynna sér hegðun hennar.
Aðal fæða sjóbleikju í sjó eru marflær og krabbadýr t.d. rauðáta, en hún nærist einnig á burstaormum og smáfiskum. Þegar sjóbleikja kemur í sína heimaá, velur hún aðallega að borða bobbinga, flugur og lirfur. Mýflugur, vorflugur og fiðrildi er vinsæl fæða hennar en einnig borðar hún stundum hornsíli.

“San Juan worm” er eftirlíking af vatnaormum t.d. mýflugulirfu þegar hún er að mótast og er algeng fæða silungs. Þessi fluga, hnýtt aðallega úr “chenille”, er þekkt fyrir einfaldleika, endingu og fjölhæfni, þar sem hægt er að veiða á hana allt árið um kring og í nánast hvaða vatni sem er. Nú orðið er vanalegt að hnýta hana með kúlu, en vegna þess hversu létt hún reynist er hún ósjaldan notuð sem aukafluga með annarri þyngri sem dregur hana niður til fisksins. Á þann hátt hefur San Juan ormur reynst mörgum stangveiðimönnum ótrúlega vel.
Sá sem þetta skrifar hefur notast við rauða San Juan orma í allmörg ár, aðallega í silungsveiði. Þeir hafa reynst mjög vel t.d. Í sjóbleikju í Eyjafirði og urriðaveiði í Laxá í Þingeyjarsveit. Í veiðiferð fyrir stuttu, í Svarfaðardalsá, komu 8 fiskar af 12 á þessa “ómissandi” flugu.
Ljósmynd/Hér má sjá San Juan “blóðorm” með kúlu, eins og hann er oftast hnýttur í dag
Samantekt tekin saman af Högna Harðarsyni, hjá Veiðiheimum. Heimildir; Pálmi Gunnarsson, árið 2005