Lax númer tvö þúsund veiddist í Ytri Rangá í morgun. Það var norskur frændi okkar sem setti í og landaði þessum merkislaxi á Rangárflúðum. Laxinn tók Skull head Sunray og mældist 63 sentímetrar.
Þetta er nánast upp á dag sama veiði og í fyrra en þá veiddist tvö þúsundasti laxinn tveimur dögum síðar eða þann 13. ágúst. Nú er hann á ferðinni tveimur dögum fyrr og hefur veiðin síðustu daga verið hreint út sagt frábær. Síðustu vikutölur sýndu líka að 516 laxar veiddust í síðustu viku þegar tölur voru teknar saman.
Sú vika var sú stærsta í Ytri Rangá í nokkur ár eða síðan 2022. Besta vikan það ár gaf 525 laxa og var það mánaðamótavikan júlí ágúst.
Ingmar Taranger með laxinn af Rangárflúðum sem reyndist vera sá tvö þúsundasti. Það þýðir bara eitt. Pönnukökuveisla. Ljósmynd/IO
mbl.is – Veiði · Lesa meira