Hópur manna náði í nótt þremur eldislöxum úr neðsta veiðistað Haukadalsár. Notuð voru ljós við veiðarnar og tókst að háfa fiskana. Aðgerðir voru undir stjórn Jóhannesar Sturlaugssonar en það er mat Ingólfs Ásgeirssonar sem var á staðnum í nótt, á vegum Iclandic Wildlife Fund (IWF) að tugir eldislaxa séu í þessum eina hyl í ánni. „Þetta er hræðilegt ástand. Það verður að grípa til aðgerða strax og það hlýtur að vera til viðbragðsáætlun sem þarf að virkja þegar í stað. Þetta er skelfilegt að horfa upp á þetta og enginn veit umfangið,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst í morgunsárið.
Eftir að myndir birtust á samfélagsmiðlum í gær af veiði í Haukadalsá spruttu menn á fætur, enda ljóst að um strokulax úr eldi var að ræða. Veiðimenn við ána veiddu að öllum líkindum fjóra slíka og slepptu þeim öllum í góðri trú.
Jóhannes Sturlaugsson með einn af eldislöxunum sem hann náði í Haukadalsá í nótt. Þeirra mat er að vel á annan tug eldislaxa sé í neðsta hyl árinnar. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson
mbl.is – Veiði · Lesa meira