Stundum gerast ævintýrin þegar þú átt síst von á því. Erlendir feðgar sem voru að veiða í Víðidalsá höfðu landað fimm fiskum og voru býsna sáttir. Síðasta kvöldið áttu þeir Dalsárós, þann rómaða stórfiskastað. Sigurjón Bragi Geirsson, „masterchef“ var leiðsögumaður þeirra feðga.
„Þetta var búið að vera fínt hjá þeim. Sonurinn með fimm laxa og pabbinn með einn. Við vorum mættir í Dalsárósinn og þá gerðist það að vindur datt niður og maður upplifir eins og að það hlýni aðeins. Klukkan var tíu mínútur í níu, þannig að það var alveg tími til að taka eina umferð enn. Sonurinn var búinn að fara með tvær flugur í gegnum staðinn án þess að fá viðbrögð. En allt í einu var eins og það gæti verið móment í þessu. Ég setti lítinn Valbein með kón undir hjá þeim eldri en hann sagðist ekki hafa trú á þessu. Ég byrjaði að labba að hylnum og hann kom á eftir mér með semingi. Hann sagði, „OK, ég tek tvö köst og svo förum við í hús.“ Við byrjuðum þar sem Dalsáin rennur út í ósinn. Í seinna kastinu kom fiskur á eftir flugunni. Negldi hana og stökk hátt í loft upp í áttina að okkur. Sá gamli varð ekkert smá hissa,” sagði Sigurjón í samtali við Sporðaköst.
Veiðimaðurinn Michael Jacobsen til hægri og leiðsögumaðurinn og meistarakokkurinn Sigurjón Bragi Geirsson til vinstri. Þessi tók í Dalsárósi en var landað neðarlega á Skipstjórabreiðu. Ljósmynd/SBG
mbl.is – Veiði · Lesa meira