Veiðifélagarnir Ólafur Rögnvaldsson, útgerðarmaður og Guðmundur Már Stefánsson, læknir áttu þriðja svæðið í Miðfjarðará seinnipartinn í gær. Þeir voru á leið í einn gjöfulasta veiðistað svæðisins, Grjótárstreng. Þeir voru komnir á slóðann sem liggur með ánni þegar Óli Rögg, eins og hann er jafnan kallaður sá út undan sér stórlax hnísa í litlum streng, neðan við Aðalbólsbrúna. Áður en bílinn stöðvaðist sagði Óli Rögg, „Út með þig og vaddu yfir á brotinu fyrir neðan og veiddu strenginn.“ Læknirinn veit sem er að þegar útgerðarmaðurinn gefur skipanir af þessu tagi er rétt að gera eins og hann leggur til.
Vopnaður lítilli rauðri Frances keilu með krók númer fjórtán öslaði hann yfir brotið og kastaði á strenginn.
„Óli Rögg þekkir Miðfjarðarána betur en flestir. Hann sagði mér að hann væri að koma í ána í 88. skiptið. Það eru samtals 264 nætur sem hann hefur gist hérna,“ hlær Guðmundur Már læknir. Óli grípur orðið. „Það er nú ekki neitt. Jonni er búinn að vera hérna í tvö þúsund daga,“ svarar Óli. Þar er hann að vísa til Jóhanns Birgissonar, yfirleiðsögumanns í Miðfirðinum.
Við Skiphyl í morgun. Halldór Halldórsson með langstærsta lax sem hann hefur veitt á ferlinum. Stóru hængarnir eru farnir að verða árásargjarnar. Ljósmynd/Halldór Halldórsson
mbl.is – Veiði · Lesa meira