Það var norðan kaldi en samt níu stiga hiti. Ágætt veiðiveður en afskaplega lítið að gerast. „Förum í Neðri Ármót og köstum á þann stóra. Alltaf skemmtilegra að kasta á stað þar sem þú veist að er lax undir,“ lagði fulltrúi Sporðakasta til við Sigþór Sigurðsson, þar sem þeir voru staddir á svæði þrjú í Víðidalsá. Sporðaköst höfðu tekið að sér leiðsögn í þessari fornfrægu stórlaxaá.
Fyrir valinu varð Blámi. Fluga sem hefur reynst vel og er bláleit Sunray útgáfa. Sigþór byrjaði ofarlega og vann sig skref fyrir skref niður hylinn. Þegar komið var um miðbik hans splassaði lax á fluguna. Stór sporður. Sigþór hrökk við og leit til lands og leiðsögumanns. Það var smá spenna í loftinu. Aftur var kastað á sama stað. Bláminn lenti mjúklega og hóf þegar í stað sundið til baka. Á eftir honum kom röst sem endaði í ólgu. „Úfffff. Sástu þetta?“ Sigþór var skrækur af spenningi. „Stopp. Komdu í land,“ kallaði leiðsögumaðurinn. Sigþór sem er alvanur var sammála því. Nánast samstundis sögðu báðir. „Við skulum smækka.“
Laxinn var nýbúinn að stökkva og þá sá Sigþór að þetta var stór fiskur. Bjóst samt ekki við að hann væri svona stór. Hér siglir hann upp hylinn á leið bak við torfið. Ljósmynd/Sporðaköst
mbl.is – Veiði · Lesa meira